Aðalfundur Flakkara félags húsbílaeigenda var haldinn í Laugarborg á Hrafnagili 24. apríl 2025, sumardaginn fyrsta og hófst kl. 14:00.

Formaðurinn, F-114 Gunnar Skarphéðinsson, setur fundinn og biður fólk að minnast látinna félaga með því að rísa úr sætum. Tilnefndir eru fundarstjóri, F-200 Helgi Haraldsson og ritari, F-125 Gunnþór E. Sveinbjörnsson. Fundarstjóri kannar lögmæti fundarins og kynnir dagskrá hans.

Formaður flytur skýrslu stjórnar og kom þar fram sem áður áhyggjur af því hve erfitt væri að fá fólk til að starfa í stjórn og nefndum. Í máli formanns kom fram að 10 félagsnúmer hafi sagt sig úr félaginu frá áramótum og 5 ný númer komið inn. Hann greindi einnig frá að skoðunarstofurnar veittu afslátt eins og síðastliðið ár.
Formaður fór yfir ferðaáætlun sumarsins, en hann er jú einn úr þeirri nefnd sem samanstendur af Austfirðingum.
Í umræðu um ferðanefnd kom F-420 Baldur Jón Helgason með þá tillögu að ferðanefnd yrði ekki skipt út allri eftir hvert sumar, heldur yrði alltaf einhver hluti af nefndinni starfandi næsta ár líka.
F-206 Þorvaldur Ó. Traustason fór yfir reikninga félagsins, í stað gjaldkera sem var raddlítill vegna kvefs.
Umræða um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins og afgreiðsla.

Lagabreytingar voru tvær
1. Nafni Sparnaðarnefndar breytt í Fjáröflunarnefnd
2. 12. greinin sem fjallar um hvað verður um eignir félagsins ef það er lagt niður. Í seinni málsgrein 12. greinar stendur: Skulu þá eignir félagsins renna til uppbyggingar á þjónustu við húsbílaeigendur. Lagt er til að sú grein hljóði þannig: Skulu þá eignir félagsins renna til Sjúkrahússins á Akureyri kt: 580269-2229.

Kosning í stjórn
Lýst var eftir formanni og gjaldkera. Enginn bauð sig fram til formanns og féllst F-114 Gunnar Skarphéðinsson á að gegna því starfi áfram. F-421 Gísli Grímsson bauð sig fram til gjaldkera.
F-359 Guðný H Guðmundsdóttir verður varamaður í stað F-164 Guðbjörns Jónssonar
Í uppstillinganefnd: F-258 Ingi B Guðmundsson, F-114 Herdís Geirsdóttir og F-237 Sigríður Kolbrún sem var þar fyrir.
Kosning skoðunarmanns reikninga: F-157 Ketill Freysson kemur í stað F-421 Gísla Grímssonar
Kosning ferða og skemmtinefndar fyrir árið 2026.

Önnur mál
Undir þessum lið var gert kaffihlé og ræddu fundargestir málin. Miklar og góðar veitingar eins og endranær hjá kvenfélagskonum sveitarinnar.
Eftir kaffihlé þegar fundur hófst að nýju kom í ljós að ferðanefnd fyrir 2026 hefur verið mynduð að mestu og kemur þá fram fullsköpuð á næsta haustfundi.
Allar ályktanir, lagabreytingar og kosningar samþykktar einróma.
Fleira ekki fyrir tekið og fundi slitið kl. 15:00.

Gunnþór E. Sveinbjörnsson ritari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *